Umsögn MRSÍ um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðning við þolendur þeirra

Mannréttindaskrifstofa Íslands (MRSÍ) styður framangreinda tillögu til þingsályktunar heils hugar og telur þær tillögur sem þar eru bornar fram allar afar mikilvægar og til þess fallnar að bæta stöðu brotaþola kynferðisbrota. Langur málsmeðferðartími í kynferðisbrotamálum hefur verið viðvarandi um langa hríð, þó ákveðinna breytinga til hins betra sé farið að gæta. Málsmeðferðartíminn er þó enn óeðlilega langur miðað við hvað bæði brotaþolar og sakborningar hafa mikla hagsmuni af styttri málsmeðferð. Í einhverjum tilvikum hefur það leitt til skilorðsbundinna dóma og jafnvel ýtt undir niðurfellingu mála í réttarkerfinu.

Hvað varðar rannsóknarskýrslu um kynferðisbrotamál í réttarkerfinu þá telur MRSÍ það góða hugmynd en bendir á gagnlegt yfirlit Ragnheiðar Bragadóttur prófessors í bók hennar „Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks“ frá 2018, en þar er að finna yfirgripsmikla rannsókn á kynferðisbrotum, þar á meðal um málsbætur, þyngingarástæður, refsilækkunar- og refsihækkunarástæður. Jafnframt bendir MRSÍ á greinargerð Dr. Hildar Fjólu Antonsdóttur réttarfélagsfræðings „Réttlát málsmeðferð með tilliti til þolenda kynferðisbrota“, um leiðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola, sem unnin var 2019 fyrir stýrihóp forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.

Hér má nálgast umsögnina í heild sinni.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16