Flýtilyklar
Umsögn MRSÍ um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026
Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026, þskj. 1212, 795. mál.
Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) hefur borist framangreind tillaga til umsagnar. Átti skrifstofan fulltrúa í starfshópi gegn hatursorðræðu sem skilaði af sér drögum að tillögunni og styður hana heils hugar. Tillagan er umfangsmikil og mælir fyrir um fjölbreyttar aðgerðir, enda var starfshópnum falið að skoða viðfangsefnið frá ýmsum hliðum.
Fleiri aðgerðir en fram koma í tillögunni voru þó ræddar og jafnframt nánari útfærsla. Þær aðgerðar voru valdar úr sem brýnastar þóttu og reynt að skýra þær að gagni án þess að fara í of ítarlegt og langt mál. Framkvæmdaaðilum er enda ætlað að tryggja þekkingu og færni þeirra sem framkvæma eiga aðgerðirnar sem og verklag við þá framkvæmd.
Nokkrir úr starfshópnum lýstu áhyggjum yfir því að það fjármagn sem ætlað er til aðgerðanna dygði ekki og var MRSÍ þar á meðal. Ítrekar skrifstofan þær áhyggjur sínar og hvetur til þess að fundið verði meira fjármagn til að standa undir þeim aðgerðum sem þingsályktunartillagan mælir fyrir um.