Flýtilyklar
Umsögn MRSí um frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði
Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði. Löngu er tímabært að sett verði heildstæð löggjöf um kynrænt sjálfræði hér á landi og styður skrifstofan frumvarpið heils hugar en gerir alvarlegar athugsemdir við að í frumvarpinu er ekki að finna ákvæði til verndar intersex börnum gegn skaðlegum og ónauðsynlegum líkamlegum inngripum þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda í stjórnarsáttmála, en þar segir:
„Ríkisstjórnin vill koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex-fólks. Í þeim lögum yrði kveðið á um að einstaklingar megi sjálfir ákveða kyn sitt, kynvitund þeirra njóti viðurkenningar, einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.“
Að mati MRSÍ verður ekki nógsamlega tíundað mikilvægi þess að vernda einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni, sem ekki falla að stöðluðum hugmyndum um líffræðileg einkenni karl- eða kvenkyns líkama, fyrir tilraunum til að laga líkama þeirra að stöðluðum hugmyndum um kynin með skurðaðgerðum og/eða hormónameðferðum. Í niðurstöðum rannsóknar Amnesty International kemur fram að þegar einstaklingar með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni og fjölskyldur þeirra leita eftir þjónustu í íslenska heilbrigðiskerfinu þá dregur skortur á skýru mannréttindamiðuðu verklagi og þverfaglegri nálgun, ásamt ónógum félagslegum stuðningi, úr möguleikum þeirra til að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. MRSÍ telur að betur hefði farið á því að frumvarpið innihéldi ákvæði til verndar intersex börnum auk ákvæðis til bráðabirgða I sem skili tillögum um úrbætur í málefnum þeirra.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.