Flýtilyklar
Umsögn MRSÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir
Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir (sameining Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs, þjónustustöðvar), þskj. 1194, 782. mál.
Því fer fjarri að allir þeir sem til Íslands flytja stundi atvinnu hér á landi, þó atvinnuþátttaka meðal innflytjenda sé vissulega há og mun hærri en á hinum Norðurlöndunum (1). Ástæður komu eru margvíslegar auk atvinnuþátttöku, svo sem vegna fjölskyldusameiningar, náms, þátttöku í einstökum verkefnum, t.d. á sviði lista- og menningalífs og svo má ekki gleyma flóttamönnum, bæði þeim sem leita eftir alþjóðlegri vernd á eigin vegum og þeim sem koma hingað sem kvótaflóttamenn. Augljóst má vera að þessi fjölbreytti hópur sem telur rúmlega 60 þúsund manns hafi ýmiss konar bakgrunn, þekkingu og reynslu og þurfi mismunandi og fjölbreytta þjónustu. Nægir að nefna fatlað fólk, jafnt börn sem fullorðna einstaklinga, hinsegin fólk, fólk með áfallastreituröskun og svo mætti lengi telja. Á Íslandi er nú fjölmenningarsamfélag og á stjórnvöldum og okkur sem fyrir erum hvílir sú skylda að tryggja öllum jöfn tækifæri og vernd gegn mismunun.
Í ljósi þessa furðar MRSÍ sig á að það viðamikla og mikilvæga hlutverk, sem Fjölmenningarsetri er ætlað að gegna samkvæmt lögum um málefni innflytjenda og Vinnumálastofnun er nú ætlað að taka yfir, skuli ekki eiga að endurspeglast í heiti stofnunarinnar. Það eitt að Vinnumálastofnun eigi að halda nafni sínu óbreyttu gefur til kynna litlar áherslur á önnur mál tengd innflytjendum en atvinnumál þeirra. Markmið laga um málefni innflytjenda er að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Skal markmiðinu meðal annars náð með því hagsmunir innflytjenda séu samþættir allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera, að stuðla að víðtæku samstarfi og samþættingu aðgerða og verkefna milli allra aðila sem koma að málefnum innflytjenda, efla fræðslu og miðlun upplýsinga um málefni innflytjenda og samfélag án fordóma og stuðla að og styðja við rannsóknir og þróunarverkefni í málefnum innflytjenda. Í lögunum er einnig kveðið á um þau afar viðamiklu verkefni sem Fjölmenningarsetri eru ætluð til að ná fram markmiðum laganna. MRSÍ hvetur til og raunar væntir þess að þeim verkefnum sem Fjölmenningarsetur hefur nú með höndum og Vinnumálastofnun er ætlað að yfirtaka fái þann sess sem þeim ber og að allt kapp verði lagt á að tryggja mannafla, fagþekkingu og fjármagn til að sinna þeim svo viðunandi sé.
MRSÍ hvetur til og raunar væntir þess að þeim verkefnum sem Fjölmenningarsetur hefur nú með höndum og Vinnumálastofnun er ætlað að yfirtaka fái þann sess sem þeim ber og að allt kapp verði lagt á að tryggja mannafla, fagþekkingu og fjármagn til að sinna þeim svo viðunandi sé.