Flýtilyklar
Umsögn MRSÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis (jafnt vægi atkvæða)
Efni: Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis (jafnt vægi atkvæða), þskj. 27, 27. mál.
Mannréttindaskrifstofu Íslands hefur borist framangreint frumvarp til umsagnar. Styður skrifstofan frumvarpið og vísar í orð greinargerðar með því varðandi reglur Nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum (Feneyjanefndarinnar) um góða starfshætti í kosningamálum (e. Code of Good Practice in Electoral Matters 2002). Í þeim reglum kemur fram að tryggja skuli sem jafnast vægi atkvæða; að misvægi atkvæða fari almennt ekki yfir 10% og alls ekki yfir 15% nema við sérstakar aðstæður.
Minnir skrifstofan jafnframt á svokallað Kaupmannahafnarskjal, sem samþykkt var árið 1990 að tilstuðlan Ráðstefnunnar um Öryggi og Samvinnu í Evrópu. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) sér nú um framkvæmd skjalsins og í þremur skýrslum stofnunarinnar um skoðun framkvæmdar kosninga á Íslandi á árunum 2009, 2013 og 2017, er bent á að misvægi atkvæða brjóti í bága við ákvæði 5.10 í Kaupmannahafnarskjalinu þar sem segir að kosningakerfi verði að virða grundvallarmannréttindi og lagalegan heilleika. Benda skýrslurnar á að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár sé brotin með ójöfnu vægi atkvæða. Íslensk stjórnvöld hafa brugðist við þessum ábendingum að einhverju leyti.
Með vísan til þess er að framan greinir verður að telja að ójafnt vægi atkvæða brjóti gegn jafnræðisreglum alþjóðlegra mannréttindasamninga og -yfirlýsinga sem Ísland er aðili að.
Umsögnina má finna hér.