Flýtilyklar
Umsögn MRSÍ um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/2002 (refsing við tálmun eða takmörkun á umgengni)
Mannréttindaskrifstofu Íslands hefur borist ofangreint frumvarp til umsagnar og gerir eftirfarandi athugasemdir við efni þess.
Í Barnalögum nr. 76/2003 og lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013, er skýrt kveðið á um rétt barna til að þekkja og umgangast báða foreldra sína, sé það ekki talið andstætt hagsmunum þeirra. Telur MRSÍ afar vandséð að því markmiði verði best þjónað með fangelsun annars foreldris, en með slíkri ráðstöfun væri girt fyrir umgengni barns við það foreldri nema endrum og sinnum og það jafnvel allt af 5 árum. Getur það ekki á nokkurn hátt talist barninu fyrir bestu eða þjóna hagsmunum þess. Sjálfsagt er að beita úrræðum til að koma í veg fyrir tálmun en auðveldlega má finna önnur en fangelsisrefsingu. Að mati MRSÍ samræmist það heldur ekki einni grundvallarreglu mannréttindalöggjafar, þ.e. meðalhófsreglu, sem kveður á um að aldrei skuli gengið lengra en nauðsyn ber til til að ná fram lögmætu markmiði. Lögmæta markmiðið hlýtur að vera það, að teknu tilliti til hagsmuna barnsins, að tryggja umgengni þess við báða foreldra og að koma í veg fyrir tálmun annars foreldrisins á umgengni barnsins við hitt en ekki það að refsa foreldrinu fyrir tálmun á umgengni.
MRSÍ er ekki kunnugt að gerðar hafi verið rannsóknir sem sýna fram á tíðni tálmunar á umgengni né hverjar ástæður tálmunar séu. Hins vegar hefur skrifstofan, í gegnum lögfræðiráðgjöf við innflytjendur og persónulega reynslu framkvæmdastjóra af starfi fyrir Kvennaráðgjöfina, rætt við ótalmarga foreldra, flest mæður, sem telja andstætt hagsmunum barna sinna að umgangast hitt foreldrið. Oftast er það vegna ofbeldis þess foreldris í garð hins og barnanna, vímuefnaneyslu, andlegra veikinda og þess háttar. Er það og reynsla MRSÍ að foreldri séu mjög meðvituð um skyldur sínar gagnvart börnum sínum og að þau leitist við að verja hagsmuni þeirra af heilindum og hafa það sem er þeim fyrir bestu að leiðarljósi. Margir hafa enda látið þess getið að einungis í lengstu lög hafi þau tekið fyrir umgengni og það af tilliti til barnsins en ekki til að ná sér niður á hinu foreldrinu. Slík tilvik eru án efa til en eins og áður segir er tíðni þeirra ekki þekkt og í þeim tilvikum sem nefnd voru hér að framan telur MRSÍ það mjög orka tvímælis að refsa foreldri fyrir að uppfylla lögbundnar skyldur sínar við börn sín og furðar sig á að í frumvarpinu skuli ekki gert ráð fyrir undanþágum í tilvikum sem þeim sem hér eru rakin.
Loks leggur MRSÍ til að hugtakið tálmun verði skilgreint. Slíka skilgreiningu er hvorki að finna í barnalögum né barnaverndarlögum og er afar mismunandi hvaða skilning fólk leggur almennt í hugtakið. Þannig hefur skrifstofan m.a. spurnir af kröfu um dagsektir vegna tálmunar þegar barn kaus að fara í skólaferðalag í stað þess að hitta foreldri á umsömdum tíma. Yrði það mjög til að draga úr álagi á starfsfólk sýslumannsembætta ef fyrir lægi skilgreining á hugtakinu og jafnvel dæmi sem orðið gætu til að draga úr ástæðulausum kvörtunum.
Umsögnina má lesa í heild sinni hér.