Flýtilyklar
Umsögn MRSÍ um frumvarp á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði
Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) borist til umsagnar frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.
MRSÍ fagnar frumvarpinu því að þótt margt hafi áunnist á Íslandi í jafnréttismálum, s.s. aukin réttindi kvenna og samkynhneigðra, þá er margt óunnið og ýmsir samfélagshópar eiga enn undir högg að sækja án þess að geta sótt rétt sinn telji þeir á sér brotið. MRSÍ hefur um nokkurt skeið vakið athygli á því hversu ófullkomin íslensk jafnréttislöggjöf er þegar um er að tefla aðrar tegundir jafnréttis en kynjajafnrétti. Lögin eru afar brotakennd í samanburði við það sem kveðið er á um í Evrópurétti og þá löggjöf sem finna má í löndum sem Ísland ber sig helst saman við. Í þessu ljósi fagnar MRSÍ frumvarpsdrögunum í þeirri von að nú verði stigin lokaskref í innleiðingu mismununartilskipana Evrópusambandsins nr. 2000/43/EB og 2000/78/EB. MRSÍ bendir þó á að gildissvið hinna ýmsu jafnréttistilskipana er mismunandi. Sem dæmi má nefna að svo sem í frumvarpinu greinir, skal mismunun á grundvelli kynvitundar bönnuð á vinnumarkaði, en með því er þeirri mismununarástæðu veitt þrengri réttarvernd en nú tíðkast í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og Mannréttindadómstóls Evrópu, en þar hefur kynvitund verið felld undir gildissvið kynjajafnréttislöggjafar (Þeir sem ætla í kynleiðréttingarferli, eru í kynleiðréttingarferli eða hafa lokið kynleiðréttingarferli). Þá furðar MRSÍ sig enn fremur á að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir mismunun á grundvelli kyneinkenna sem ætti tvímælalaust að tilgreina einnig sem mismununarástæðu, á hliðstæðum forsendum við kynvitund, einkum og sér í lagi í ljósi þess að Ísland féllst á tillögu Ástralíu um að innleiða löggjöf sem banni mismunun á grundvelli kyneinkenna, í UPR ferlinu (úttekt aðildarríkja Sþ á stöðu mannréttindamála á Íslandi) í nóvember á síðasta ári.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.