Flýtilyklar
Umsögn MRSÍ um breytingu á almennum hegningarlögum
Efni: Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (barnaníðsefni, hatursorðræða, mismunun o.fl.), þskj. 558, 389. mál.
Mannréttindaskrifstofa Íslands (MRSÍ) fagnar frumvarpi þessu og telur þær breytingar sem í því felast tímabærar, einkum þá að við ákvörðun hegningar, sbr. 70. gr. hegningarlaga (hgl.), beri að taka til greina hvort brot megi rekja til nánar tilgreindra atriða er varða brotaþola persónulega og brot þannig af meiði hatursglæpa. Í skýrslu sinni um hatursorðræðu, útg. 2012, lagði MRSÍ enda til að annað tveggja yrði sett sérstakt ákvæði í hgl. eða að bætt yrði við mgr. í 70. gr. laganna sem heimili að meta það til refsiþyngingar ef brot grundvallast á einhvers konar fordómum. Með fyrirhugaðri breytingu eru stjórnvöld því að mæta þessarri tillögu og jafnframt að uppfylla tilmæli nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD), sem fram komu í lokaathugasemdum skýrslu nefndarinnar, dags. 29. ágúst 2019.