Stjórnvöld stjórna mannréttindum

Mannréttindaskrifstofa Íslands fær skilyrt styrktarfé að upphæð 2,2 milljónir króna frá dómsmálaráðuneytinu. Er það eina féð sem stjórnvöld hafa tryggt skrifstofunni einni sem áður var á fjárlögum.

Brynhildur Flóvenz, stjórnarformaður Mannréttindaskrifstofunnar, segir erfitt að meta af hverju styrkurinn er skilyrtur.

"Auðvitað freistast maður til að halda að stjórnvöldum finnist einfaldlega óþægilegt að svona starfsemi sé í gangi og vilji ekki styðja skrifstofu sem fylgist með þeim," segir Brynhildur. Hún bendir á að stjórnvöld hafi ekki kosið að styrkja umsagnir um lagafrumvörp á Alþingi og skýrslu til Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi hér á landi.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra segir stjórnvöld engan ama hafa af starfi Mannréttindaskrifstofu Íslands.

"Með þessum styrk er ætlunin að auðvelda henni starfið. Þykir mér miður ef styrkveitingin veldur skrifstofunni vandræðum, en ráðuneytið var í góðri trú um að umsóknin tæki mið af þeim verkefnum sem skrifstofan teldi mikilvægt að sinna," segir Björn. Valin hafi verið verkefni úr umsókn skrifstofunnar og ákveðið að veita fé til að styrkja þau.

Brynhildur segir að fénu eigi að verja í ritröð sem skrifstofan gefi út, gerð fræðsluefnis og að hluta þýðingu úr Mannréttindasáttmála Evrópu: "Það á ekki að vera á höndum stjórnvalda hvaða verk eru unnin á skrifstofunni og hver ekki."

Dómsmálaráðuneytið veitti skrifstofunni og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands einnig 650 þúsund króna styrk til að ræða tíu ára afmæli mannréttindaákvæðis stjórnarskrárinnar

Fréttin á vísir.is http://www.visir.is/stjorvold-stjorna-mannrettindum/article/2005503250336


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16