Skortir mansalsáætlun fyrir börn: Of lítið fé í forvarnir

Stjórnvöld þurfa að tryggja fjármagn til þeirra úrræða sem ætluð eru til aðstoðar eða verndar börnum. Vinnuálag starfsmanna í þessum geira er oft og tíðum óviðunandi. Þá er ástæða til að hafa áhyggjur af börnum sem hvergi eru til í kerfinu og fá þar af leiðandi ekki þá grunnþjónustu sem Barnasáttmálinn tryggir þeim. Þá verður að vinna sérstaka mansalsáætlun fyrir börn eða endurvinna núgildandi mansalsáætlun með börn í huga. Ekki getur talist eðlilegt að þær litlu forvarnir sem boðið er upp á gegn kynferðislegri misnotkun barna séu einkum í höndum frjálsra félagasamtaka. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skuggaskýrslu um stöðu barna á Íslandi með tilliti til ákvæða Barnasáttmálans. Þeir sem unnu skýrsluna eru Barnaheill - Save the Children á Íslandi, Mannréttindaskrifstofa Íslands og UNICEF - Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Skýrslan hefur verið send til Sameinuðu þjóðanna. 

Meðal helstu niðurstaða í skuggaskýrslu samtakanna þriggja er að þó gerðar hafi verið tvær aðgerðaráætlanir, annars vegar um barnavernd og hins vegar um aðgerðir til að bæta stöðu barna og ungmenna, hefur aðeins lítill hluti þessara áætlana komist til framkvæmdar.

 

Ástæða er til að hvetja stjórnvöld eindregið til að bæta úr því um leið og unnið er áfram að endurskoðun og uppfærslu þessara aðgerðaáætlana. 

Einnig má nefna að þrátt fyrir að til sé heildarstefna í málefnum innflytjenda, þar sem nokkrir liðir fjalla sérstaklega um börn innflytjenda, hefur fátt eitt komið til framkvæmda. Úr því verður að bæta og sérstaklega ber stjórnvöldum að gera öllum sveitarfélögum skylt að móta sér stefnu í þjónustu við innflytjendur. Það er mat samtakanna að sárlega skorti heildarstefnu í málefnum barna og barnafjölskyldna af hálfu stjórnvalda.

Í skuggaskýrslunni segir að ástæða sé til að óttast að hagsmunir barna í forsjárdeilum séu fyrir borð bornir. Svo virðist sem réttur barnsins til umgengni við foreldra sé á stundum færður frá barninu yfir til foreldris en það fer gegn hagsmunum barnsins, gegn barnalögum og gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Skýrslan í heild sinni var kynnt á blaðamannafundi í morgun.

 

Fréttin á vísir.is http://www.visir.is/skortir-mansalsaaetlun-fyrir-born--of-litid-fe-i-forvarnir/article/2011110409523


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16