Flýtilyklar
Ríki varpa frá sér ábyrgð á hælisleitendum
Dyflinarreglugerðin hefur ekki náð þeim tilgangi sem henni var ætlaður. Ríki geta jafnvel varpað frá sér ábyrgð á hælisleitendum á grundvelli hennar. Þetta segir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Ísland er eitt af Schengen-ríkjunum og hefur sem slíkt innleitt Dyflinarreglugerðina. Á grundvelli hennar hafa ríki heimild til að endursenda hælisleitendur til þess Schengen-ríkis sem þeir komu fyrst til, án þess að taka mál þeirra efnislega fyrir. „Tilgangurinn með þessu Dyflinarsamkomulagi var annars vegar það að fólk færi ekki á milli landa og sækti um hæli í mörgum löndum, heldur tæki eitt ríki innan Schengen svæðisins ákvörðunina,“ segir Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Annar tilgangur hafi verið að létta álagi af þeim ríkjum sem flestir flóttamenn og hælisleitendur leita til. „En hún hefur nú ekki alveg virkað sem skyldi. Alla vega segja gagnrýniraddir að Dyflinarreglugerðin og samkomulagið hafi í raun ekki almennilega náð sínum tilgangi - heldur virki það þannig að þau ríki sem eru ekki fyrsta Schengen landið, þá sendi þau hælisleitendurna til baka á grundvelli þessa samkomulags, án þess að skoða málið eða umsóknina,“ segir Margrét.
Jafnvel megi segja að reglugerðin hafi verið misnotuð og að ríki varpi frá sér ábyrgð á grundvelli hennar. „Það gæti jafnvel verið þannig. Tilgangurinn átti ekki að vera sá. Hann átti bara að vera til þess að umsóknin fengi þá einhvers staðar afgreiðslu en ekki í mörgum löndum.“
Margrét segir endurskoðun Dyflinarreglugerðarinnar oft hafa verið til umræðu en ýmsir ráðamenn innan ESB hafi lagst gegn því.
Fréttina má skoða á ruv.is hér; http://www.ruv.is/frett/riki-varpa-fra-ser-abyrgd-a-haelisleitendum