Flýtilyklar
RIFF - Umræður eftir frumsýningu (Impact Talk) Eternal Spring
RIFF- Umræður eftir frumsýningu (Impact Talk) Eternal Spring
Þann 5. október síðastliðinn tók framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofu Íslands þátt í umræðum (Impact Talk) eftir frumsýningu myndarinnar Eternal Spring á RIFF (Reykjavík International Film Festival). Leikstjóri myndarinnar er Jason Loftus og var hann einnig einn aðalhandritshöfunda hennar og framleiðandi. Myndin var frumsýnd á þessu ári og hefur þegar unnið til margra verðlauna, meðal annars dómnefndar unga fólksins á RIFF hátíðinni.
Myndin fjallar um það þegar meðlimir hreyfingarinnar Falun Gong brutust inn í útsendingu kínverska ríkissjónvarpsins og sendu út upplýsingar um hreyfinguna en stjórnvöld í Kína höfðu fordæmt hana og bannað iðkun Falun Gong. Eftir atburðinn tóku við grimmilegar ofsóknir kínverskra stjórnvalda gegn þeim sem að útsendingunni stóðu og öllum Falun Gong iðkendum. Margir voru pyntaðir hrottalega og létu jafnvel lífið. Fjöldi manns var dæmdur til fangelsisvistar og áttu margir ekki afturkvæmt þaðan. Þá flúði einnig stór hópur Falun Gong iðkenda úr landi.
Umræðurnar eftir sýninguna voru mjög áhugaverðar, einkum í ljósi þess að á árinu 2002 var iðkendum Falun Gong meinuð aðganga að flugi til Íslands og þeim sem komust til landsins var haldið föngnum í Njarðvíkurskóla fyrst um sinn en síðan heimiluð landganga ef þeir undirrituðu yfirlýsingu um að hlýða lögreglu. Voru aðgerðir þessar í tengslum við heimsókn þáverandi forseta Kína til Íslands. Barst Persónuvernd, en á þeim tíma var framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofunnar starfsmaður stofnunarinnar, kvörtun er laut að því að að dómsmálaráðuneytið hafi afhent Flugleiðum og sendiráðum Íslands lista með nöfnum Falun Gong iðkenda í því skyni að hindra komu þeirra til landsins. Persónuvernd úrskurðaði að dómsmálaráðuneytinu hafi verið óheimilt að miðla þessum upplýsingum. Umfjöllun Persónuverndar laut einungis að því hvort brotið hafi verið gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga en ljóst má vera að íslensk stjórnvöld hafi einnig brotið gegn persónu- og ferðafrelsi einstaklinganna, rétti þeirra til einkalífs, rétti til að mótmæla og skoðana- og tjáningarfrelsi þeirra svo eitthvað sé talið.
Panellinn samanstóð af Josie Anne Gaitens, blaðamanni, Jason Loftus, leikstjóra, handritshöfundi og framleiðanda myndarinnar, Benjamín Julian, rithöfundi og aktívista með meiru, og Margréti Steinarsdóttur, framkvæmdastýru MRSÍ.