Flýtilyklar
Rétt staðið að frávísun flóttamanna
Engin merki eru um enn sem komið er að brotið hafi verið á réttindum hóps flóttamanna frá Króatíu við framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar að vísa hópnum frá Íslandi. Stofnunin synjaði fólkinu um pólitískt hæli. Þetta segir Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Ísland.
Fullyrðingar um ofsóknir þóttu tilhæfulausar
Frá því seint á síðasta ári hafa um 50 Króatar úr serbneska minnihlutanum sótt um hæli hér á landi á grundvelli þess að þeir hafi orðið fyrir aðkasti í heimalandi sínu. Tæp 15 ár eru liðin síðan friður komst á í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu en enn eru um þrjú hundruð þúsund manns á flótta. Útlendingastofnun synjaði öllum Króötunum um hæli á grundvelli ofsókna þar sem þær þóttu tilhæfulausar. Ellefu þeirra hafa þegar verið sendir úr landi og til stendur að senda að minnsta kosti 27 til viðbótar. Örlög þriggja fjöldskyldna, samtals tíu manna, eru óljós þar sem um er að ræða blönduð hjónabönd en stjórnvöld í Króatíu vilja ekki taka á móti öðrum en króatískum ríkisborgunum. Stefna íslenskra stjórnvalda er að sundra ekki fjölskyldum.
Var ekki falið að sannreyna hvort fólkið sætti ofsóknum
Ríkislögreglustjóri óskaði eftir því að Mannréttindaskrifstofa Íslands væri sjálfstæður og óháður eftirlitsaðili með því hvernig ákvörðun Útlendingastofnunar væri framfylgt. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofunnar, segir að enn sem komið er séu engin merki þess að ekki hafi verið staðið rétt að framkvæmdinni en ferlinu sé ekki lokið. Skrifstofunni hafi ekki verið falið að sannreyna hvort fólkið sæti ofsóknum í heimalandinu.
„Króatía er á leiðinni inn í Evrópusambandið og almennt eru ríki Evrópusambandsins, eða EES-ríki, ekki að veita ríkisborgunum aðildarríkjanna hæli því það er gengið út frá því aðstæður séu þær að ríkisborgarar þeirra ríkja sem búa þar séu ekki að uppfylla skilyrði flóttamannasáttmálans,“ segir Margrét.
Fréttina má lesa á ruv.is hér; http://www.ruv.is/frett/rett-stadid-ad-fravisun-flottamanna