Plástrum réttarkerfið!

Nú stendur sem hæst 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi þar sem 25 samtök og stofnanir leggjast á eitt í baráttunni. Yfirskrift átaksins að þessu sinni er: Heilsa kvenna, heilsa mannkyns; stöðvum ofbeldið. Kynbundið ofbeldi er stórt vandamál hér á landi og ein versta birtingarmynd kynjamis-réttis.

Árlega leita hundruð kvenna til Stígamóta, Neyðarmóttöku vegna nauðgunar og Kvennaathvarfsins, en athygli vekur að einungis fáar þeirra kæra ofbeldis-brotin gegn þeim. Af þeim málum sem bárust til Stígamóta á síðasta ári er vitað að 6,2% komust til opinberra aðila. Einungis 7-12% kvenna sem leita til Kvennaathvarfsins og tæpur helmingur þeirra sem koma á Neyðarmóttökuna leggur fram kæru. Ástæðurnar eru margar: Málin eru fyrnd, konur treysta sér ekki í gegnum kæruferlið, konur treysta því ekki að þeim sé trúað eða hafa enga trú á því að réttlætið nái fram að ganga. Því miður eru allt of mörg dæmi sem benda til þess að réttarkerfið þjóni konum síður en körlum; ofbeldisbrot gegn konum eru ekki sett í forgang við rannsókn og dómar yfir ofbeldis-mönnum eru mildaðir sökum þess að konur eru taldar ögra karlmönnum á einhvern hátt og beri þannig sjálfar ábyrgð á ofbeldinu. Margar konur hafa einfaldlega ekki trú á að kerfið veiti þeim úrlausn eða verndi þær fyrir frekara ofbeldi.

Ljóst er að réttarkerfið, sem á að vernda og koma fram réttlæti, er veikt og nauðsynlegt að það nái bata sem fyrst svo að það þjóni öllum; konum, börnum og körlum. Til að vekja athygli á vanheilsu kerfisins með táknrænum hætti munu samtök og stofnanir, sem standa að 16 daga átakinu, setja plástra á héraðsdóma landsins og bjóða almenningi að taka þátt í gjörningnum. Fólk er hvatt til að mæta við þann héraðsdómstól sem næstur er klukkan 17:00, þriðjudaginn 6. desember og taka þátt í samstilltu átaki til að stuðla í verki að heilbrigðu íslensku réttarkerfi.

 

Nánari upplýsingar veita:

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi, 

Drífa Snædal, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, 

Torfi Jónsson, verkefnastjóri Íslandsdeildar Amnesty International

 

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Tímasetningin var einnig valin til að leggja áherslu á mannréttindabrotin sem felast í slíku ofbeldi.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16