Flýtilyklar
Pistill um mannréttindi í 39. tbl. Vikunnar
Pistill um mannréttindi í 39. tbl. Vikunnar.
Framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofu Íslands skrifaði pistil til umhugsunar um mannréttindi í 39. tölublað Vikunnar:
Í kjölfar hörmunga seinni heimsstyrjaldarinnar áttaði heimsbyggðin sig á að eitthvað þyrfti að gera til að tryggja mannréttindi fólks um allan heim. Í raun má segja að heimsbyggðin hafi verið í hálfgerðu áfalli yfir þeim mannréttindabrotum sem uppvís urðu, sérstaklega þar sem allt sem átti sér stað var löglegt. Menn áttuðu sig þá á að það dygði ekki að fullu að leyfa hverju ríki um sig að ráða algerlega lagasetningu sinni, það yrði að vera einhver rammi sem ekki mætti fara út fyrir.
“Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.”
Með þessum orðum hefst inngangur Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var hinn 10. desember 1948. Með henni var lagður grundvöllur að uppbyggingu hins alþjóðlega mannréttindakerfis og hún hefur með árunum orðið viðurkennt leiðarljós þeirra sem vinna að eflingu og virðingu mannréttinda og þeirra sem mannréttindi eru brotin á um heim allan. Mannréttindayfirlýsingin er ítarleg og má segja tæmandi talning á þeim mannréttindum sem heimsbyggðin hefur komið sér saman um að séu mikilvægust. Þessa yfirlýsingu þurfa sem flestir að kunna og gera að sínu leiðarljósi.
En hvað eru mannréttindi? Mannleg reisn liggur mannréttindahugtakinu til grundvallar. Yfirleitt eru mannréttindi skilgreind á þann hátt að þau séu réttindi sem einstaklingar hafa á þeim grundvelli einum að þeir eru menn. Mannréttindi eru ólík öðrum réttindum á margan hátt, þau eru meðfædd réttindi, þ.e. þau er ekki hægt að kaupa eða veita einstaklingum. Mannréttindi eru óafsalanleg, það er ekki hægt að missa þau því þau eru tengd sjálfri tilveru mannsins. Mannréttindi eru háð innbyrðis og samtvinnuð. Þau eru algild sem þýðir að þau eiga við um allt fólk hvar sem í heiminum og þau renna aldrei út. Allir eiga rétt á að njóta mannréttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, kynvitundar, kynhneigðar, kyngervis, kyneinkenna, fötlunar, aldurs, stjórnmálaskoðana og annarra skoðana, þjóðernis- eða félagslegs uppruna, ætternis eða annarra atriða.
Þrátt fyrir að mannréttindi séu algild og óafsalanleg er þó undir vissum kringumstæðum hægt að víkja frá sumum þeirra eða takmarka þau. Til dæmis, ef þú fremur glæp þá er hægt að frelsissvipta þig. Einnig er hægt að takmarka tjáningarfrelsi þitt þegar friðhelgi einkalífs annarrar manneskju er í húfi. En það er einungis í undantekningartilvikum og að ströngum skilyrðum uppfylltum að það er hægt að víkja frá mannréttindum.
Hugmyndin um grundvallarmannréttindi á upptök sín í þeirri þörf samfélagsins að vernda menn fyrir ofríki stjórnvalda. Í grunninn beinist því verndun mannréttinda einkum að brotum ríkja gagnvart þegnum sínum, en ríki eru einnig skyldug til að vernda þegna sína gagnvart brotum annarra þegna. Þau þurfa einnig að grípa til aðgerða til að tryggja réttindi borgaranna.
Mannréttindum er gjarnan skipt í borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi en það eru m.a. tjáningarfrelsi, félagafrelsi, bann við pyndingum og þrældómi, ólögmætri handtöku og frelsissviptingu á meðan réttur til atvinnu, menntunar, húsaskjóls, heilbrigðis og fleira teljast til efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda. Hin fyrrnefndu hafa verið kölluð fyrstu kynslóðar mannréttindi og hin síðarnefndu annarar kynslóðar mannréttindi.
Í seinni tíð hefur áhersla á þriðju kynslóðar mannréttindi aukist. Til þessara réttinda flokkast t.d. rétturinn til efnahagslegrar og félagslegrar þróunar, friðar, heilsusamlegs umhverfis, auðlinda, til samskipta og til mannúðaraðstoðar. Stór hluti heimsins býr við mikla fátækt, stríð, vistfræðilegar og náttúrulegar hörmungar og hefur þetta þýtt að lítil framþróun hefur verið á sviði mannréttinda. Á þeim grundvelli hefur mörgum fundist nauðsyn fyrir nýjan flokk mannréttinda sem myndu tryggja viðunandi aðstæður, sérstaklega í hinum vanþróaða heimi, til að geta veitt þau fyrstu og annarrar kynslóðar réttindi sem þegar hafa verið viðurkennd.
Öll þessi flokkun mannréttinda hefur sætt mikilli gagnrýni. Sérstaklega hafa menn gagnrýnt að þetta sé ekki svona klippt og skorið, að mun meiri skörun sé á milli mannréttinda en þessi flokkun gefur til kynna og að engin mannréttindi séu rétthærri en önnur. Víst er að við getum ekki notið borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda nema njóta efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda og öfugt.
Að lokum má ekki gleyma því að réttindunum fylgja skyldur, réttur eins endar þar sem réttur næsta manns byrjar.