Flýtilyklar
Mótmælastaða vegna vægra dóma yfir kynferðisbrotamönnum -við Héraðsdóm Reykjavíkur á Lækjartorgi og héraðsdómstólana á Akureyri, Ísafirði, Selfossi og Egilsstöðum
Mótmælastaða vegna vægra dóma yfir kynferðisbrotamönnum -við Héraðsdóm Reykjavíkur á Lækjartorgi og héraðsdómstólana á Akureyri, Ísafirði, Selfossi og Egilsstöðum
Laugardaginn 25. nóvember fór fram þögul hópstaða fyrir framan Héraðsdóm Reykjavíkur á Lækjartorgi, sem og héraðsdómstólana á Akureyri, Ísafirði, Selfossi og Egilsstöðum. Tilgangur kröfufundarins var að lýsa yfir áhyggjum yfir dómum, sem fallið hafa í nauðgunarmálum á undanförnum árum, en margir telja þá vera langt innan leyfilegs refsiramma fyrir slíka skelfilega glæpi.
Send var áskorun til Allsherjarnefndar Alþingis, sem hefur til umfjöllunar frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á kynferðisafbrotakafla almennra hegningarlaga. Áskorunin lýtur að því að Allsherjarnefnd setji í nefndarálit sitt hvatningu til dómstóla landsins að nýta þá refsiramma sem löggjafinn hefur ákveðið að eigi að gilda í nauðgunarmálum, en ljóst er að refsiramminn fyrir nauðgun (1-16 ára fangelsi) er einungis nýttur að verulega litlu leyti og eru flestir sakfellingardómar fyrir nauðgun við lægri mörk refsirammans. Í ljósi alvarleika nauðgunar er réttlætiskennd almennings misboðið og voru allir þeir sem vilja sjá réttlátari og sanngjarnari dóma fyrir nauðganir hvattir til að mæta fyrir framan héraðsdómstólana þennan dag.
Á Lækjartorgi sungu félagar úr kvennakórnum Vox Feminae og Stúlknakór Reykjavíkur ásamt félögum úr karlakórnum Fóstbræður.