Flýtilyklar
Mannréttindabrot að lögsækja tvisvar
Ekki má lögsækja sama einstakling (lögaðila) tvívegis fyrir sömu sakarefni, hvort sem viðkomandi er dæmdur/úrskurðaður sekur eða saklaus, samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta kom fram á málstofu í Háskóla Íslands, sem hófst nú fyrir skömmu.
Inntak málstofunnar er efni 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt manna til að vera ekki sóttir til saka eða refsað tvívegis fyrir sömu sakarefni.
Það er Mannréttindaskrifstofa Háskóla Íslands sem stendur fyrir málstofunni, en málshefjendur eru Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild HÍ og Björn Þorvaldsson, saksóknari við embætti sérstaks saksóknara. Fundarstjóri er Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild HÍ.
Bekkurinn er þétt setinn á málstofu Mannréttindaskrifstofu Háskóla Íslands um Ne bis in idem regluna í stofu 101 í Lögbergi sem fer fram í hádeginu í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
Róbert Spanó hóf málstofuna á að fjalla um málið en í umræddri grein í mannréttindasáttmálanum segir að enginn skuli sækja lögsóknar né refsingar að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.
Í máli Róberts kom fram að einstaklingur (eða lögaðili) þurfi að hafa verið sýknaður eða sakfelldur í fyrri úrlausn og hún þarf að hafa verið endanleg til að öðlast neikvæð áhrif á réttaráhrifin. Þá kom einnig fram í máli Róberts að ný málsmeðferð þurfi að hafa átt sér stað í framhaldi af fyrri úrlausn málsins og að hún þurfi að hafa verið vegna sama brots.
Skemmst er að minnast þess að Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, var dæmdur í Hæstarétti fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Baldur vísaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu, m.a. á þeim forsendum að hann hafi þurft að sæta endurtekinni málsferð vegna refsiverðrar háttsemi, en áður hafði Fjármálaeftirlitið tilkynnt honum um lok á rannsókn á máli hans árið 2009, þar sem niðurstaðan var sú að hann hafi ekki búið yfir innherjaupplýsingum.
Fréttin á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/03/14/mannrettindabrot_ad_logsaekja_tvisvar/