Flýtilyklar
Málfundur um Sameinuðu þjóðirnar, Dr. Bertrand Ramcharan flytur erindi
Í tilefni 60 ára aðildarafmælis Íslands að Sameinuðu þjóðunum efna Mannréttindaskrifstofa Íslands, Háskólinn á Akureyri og Félag Sameinuðu þjóðanna til fræðslufundar n.k. laugardag 25. nóvember, kl. 14:00 í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna, Laugavegi 42.
Fyrirlesari er Dr. Bertrand Ramcharan en hann gegndi stöðu Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna frá 2003-2004 og var aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá 1998. Bertrand hefur starfað í rúm 30 ár fyrir Sameinuðu þjóðirnar og mun hann fjalla um starf stofnunarinnar, Öryggisráðið og umbætur á mannréttindakerfinu.
Að loknu erindi Bertrands gefst tóm til fyrirspurna og umræðna. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Áhugafólk um alþjóðastofnanir, Öryggisráðið og mannréttindi er hvatt til að mæta.
Um Dr. Bertrand Ramcharan
Dr. Bertrand Ramcharan hefur verið einn af áhrifamestu embættismönnum Sameinuðu þjóðanna á liðnum árum. Hann gegndi stöðu Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna frá 2003-2004 en hann tók við því embætti við fráfall Sergio Vieira de Mello, sem lést í árásinni á aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Bagdad. Bertrand var aðstoðarframkvæmdastjóri stofnunarinnar frá 1998. Bertrand Ramcharan er þekktur sérfræðingur á sviði almenns þjóðaréttar og mannréttinda. Hann starfaði í rúm 30 ár fyrir Sameinuðu þjóðirnar við ýmis verkefni s.s. mannréttindi, friðarviðræður, friðargæslu, pólitísk samskipti og stefnumótun. Hann stýrði m.a. friðargæslu í fyrrum Júgóslavíu, einu stærsta friðargæsluverkefni sem Sameinuðu þjóðirnar hafa ráðist í.
Bertrand er málflutningsmaður með doktorsgráðu frá London School of Economics and Political Science. Hann hefur átt sæti í International Commission of Jurists og Fasta alþjóðlega gerðardómnum. Bertrand Ramcharan hefur kennt við fjölda háskóla s.s Columbia University, Hague Academy of International Law, Háskólann í Lundi og Háskólann á Akureyri en hann hefur nýverið tekið við stöðu prófessors við Geneva Graduate Institute of International Studies. Bertrand hefur ritstýrt og skrifað á þriðja tug bóka auk fjölda greina en hann vinnur nú að bók um öryggismál og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.