Flýtilyklar
Innlend mannréttindastofnun í augsýn
Sameinuðu þjóðirnar (Sþ) gera þá kröfu að öll aðildarríki þeirra setji upp sjálfstæða, innlenda mannréttindastofnun sem starfi samkvæmt Parísarviðmiðum Sþ um starfsemi slíkra stofnana. Parísarviðmiðin gera ráð fyrir opinberum mannréttindastofnunum á fjárlögum ríkisins. Sjálfstæði stofnananna á að vera tryggt með lögum er kveða á um fjárhag, skipurit, ráðningu starfsfólks ofl.
Mannréttindasáttmálar og löggjöf nægja ekki ein og sér til að tryggja mannréttindi. Flest mannréttindi krefjast skilvirkra aðgerða af hálfu stjórnvalda til að þau séu í heiðri höfð. Til þess að koma mannréttindum raunverulega í framkvæmd er því nauðsynlegt að setja á fót mannréttindastofnanir sem vinna að eflingu og verndun mannréttinda á breiðum grunni. Nefna má Mannréttindadómstól Evrópu í því sambandi en undanfarin ár hafa margir Íslendingar leitað þangað vegna mannréttindabrota sem þeir telja sig hafa orðið fyrir. Innlendar mannréttindastofnanir gegna einnig mikilvægu hlutverki en fjölmörg ríki hafa sett slíkar stofnanir á fót til þess að vinna að mannréttindavernd. Þó viðfangsefni slíkra stofnana séu ólík á milli landa, í ljósi mismunandi menningar og aðstæðna, þá starfa þær allar á sameiginlegum grunni og að sömu markmiðum.
Þrátt fyrir að flestir alþjóðlegir eftirlitsaðilar á sviði mannréttinda hafi um árabil hvatt íslensk stjórnvöld til að setja á stofn sjálfstæða, innlenda mannréttindastofnun hefur hún enn ekki orðið að veruleika. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur starfað sem ígildi landsstofnunar og hefur allt frá upphafi komið, og kemur enn, fram fyrir Íslands hönd á vettvangi Sþ og hjá Evrópuráðinu. Leitast skrifstofan við að haga starfsemi sinni í samræmi við áðurnefnd Parísarviðmið, en í því felst m.a. að að sinna ráðgjöf, fræðslu og eftirliti á sviði mannréttinda. Skrifstofan hefur boðið fram þá þekkingu, reynslu og tengslanet sem byggst hafa upp í starfsemi hennar gegnum árin. Hefur skrifstofan og lýst því yfir að hún sé tilbúin til að gegna með formlegum hætti hlutverki sjálfstæðrar og óháðrar landsstofnunar sem starfi í samræmi við Parísarviðmiðin.
Í gegnum árin hafa stjórnvöld rætt mikilvægi sjálfstæðrar, innlendrar mannréttindastofnunar og brugðist jákvætt við fyrrnefndum tillögum alþjóðlegra eftirlitsaðila um að koma slíkri stofnun á fót. Í apríl árið 2007, við kynningu á stefnu Íslands í mannréttindamálum, fjallaði þáverandi utanríkisráðherra um mikilvægi slíkrar stofnunar. Á árinu 2013 lagði þáverandi innanríkisráðherra fram drög að landsáætlun í mannréttindamálum á vorþingi, þar sem m.a. kom fram fyrirætlun um að setja á stofn sjálfstæða, innlenda mannréttindastofnun. Það sama vor voru alþingiskosningar og málið var lagt til hliðar í kjölfarið. Í september 2016 lagði þáverandi innanríkisráðherra fram skýrslu um mannréttindi á Alþingi. Þar er sérkafli um mannréttindastofnun og þeirri skoðun lýst að nauðsynleg reynsla og þekking væri til staðar hjá Mannréttindaskrifstofunni og yrði því að telja farsælast og hagkvæmast að fela henni þetta hlutverk. Þar sagði einnig að innanríkisráðuneytið ynni að gerð frumvarps sem miðaði að því. Enn komu alþingiskosningar og var málinu frestað. Í stjórnarsáttmála núveandi ríkisstjórnar frá 2021 segir að stofnuð verði ný mannréttindastofnun. Er þetta í fyrsta sinn að slík áform koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar á Íslandi.
Í forsætisráðuneytinu er nú hafin vinna við grænbók um mannréttindi, sem gefur yfirlit yfir stöðumat og valkosti og er undanfari frekari stefnumótunar. Við vinnuna verður lagt mat á stöðu mannréttindamála á Íslandi þar sem safnað er á einn stað upplýsingum um mannréttindi, þróun, tölfræði, samanburði við önnur lönd og samantekt um mismunandi leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa í mannréttindamálum, m.a. í tengslum við stofnun sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar Lögð er áhersla á víðtækt samráð við vinnu grænbókarinnar svo sjónarmið sem flestra komi fram, ekki síst til þess að landsstofnunin verði stofnun allra sem hér dvelja. Í því skyni eru, auk funda með hagsmunaaðilum, meðal annars þessa dagana haldnir opnir samráðsfundir um landið um stöðu mannréttindamála. Samkvæmt tímaáætlun verða niðurstöður grænbókar kynntar sem drög í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun árs 2023. Drög að frumvarpi um sjálfstæða, innlenda mannréttindastofnun verða kynnt í samráðsgáttinni í maí 2023 og eftir úrvinnslu athugasemda við frumvarpið úr samráðsgátt verður það lagt fram á Alþingi í september/október 2023.
Eins og ráða má af því sem á undan er rakið, þeirri miklu undirbúningsvinnu sem þegar hefur verið unnin og tímasettri áætlun um áframhaldandi vinnu, má ljóst vera að stjórnvöldum er full alvara í þeirri fyrirætlan að setja upp sjálfstæða, innlenda mannréttindastofnun. Nú hyllir loks undir að langþráður draumur um slíka stofnun verði að veruleika og því ber að fagna.
Höfundur er framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofu Íslands
Frétt þessi birtist á miðli Fréttablaðsins og má nálgast hér.