Flýtilyklar
Hatursorðræða. Yfirlit yfir gildandi lög og reglur - ábendingar til framtíðar
Ritinu er ætlað að vera yfirlit yfir hatursorðræðu og hatursáróður, ástand mála hér á landi og löggjöf landsins er lýtur að þessum málum. Auk þess er fjallað um alþjóðlega löggjöf um hatursáróður og aðgerðir til þess að sporna gegn honum með vitundarvakningu og fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins. Að lokum er fjallað um samspil tjáningarfrelsisins og bann við hatursáróðri og því varpað upp hvort þörf sé á endurskoðun laga hér á landi í tengslum við hatursáróður og hatursorðræðu og því að stjórnvöld marki sér heildstæða stefnu til þess að berjast gegn honum.
Hatursorðræða er öfgakennd birting staðalmynda sem sýnir einstaklingnum óvirðingu og er liður í að svipta hann mennskunni. Það er mun auðveldara um vik að ráðast gegn þeim sem búið er að afmennska. Íslenskt samfélag þarf að vera vakandi yfir því að fordómar og umburðarleysi verði ekki að venju hér á landi þannig að niðrandi ummæli og fordómafullt tungutak komist ekki upp í vana og það hætti að stinga í eyru. Því með því að bregðast ekki við er hægt að taka broddinn úr niðrandi orðum og gífuryrðin verða hversdagsleg. Það má ekki verða því að orð eru til alls fyrst og á meðan einn leiðir hjá sér hatursáróður og hvatningu til ofbeldis getur slíkt orðið öðrum tilefni til að bregðast við. Til að umburðarleysi viðgangist þarf einungis skeytingarleysi fjöldans. Við ættum því aldrei að missa sjónar á lokatakmarki okkar sem er heimur fjölmenningar og umburðarlyndis. Því verðum við að leita árangursríkra leiða til þess að vernda einstaklinga gegn hatursorðræðu og ofbeldi.
Til þess að vinna markvisst gegn hatursáróðri og hatursorðræðu þarf að vera hægt að bera kennsl á hvað í þess háttar málflutningi felst og verður það ekki gert nema með aukinni þekkingu og fræðslu um orsök og afleiðingar. Því þarf að auka fræðslu á fjölbreytilegri menningu til að auka umburðarlyndi og vinna gegn fordómum. Slík fræðsla þarf að ná til samfélagsins í heild, jafnt almennings sem sérfræðinga. Einnig þarf þó að líta til löggjafarinnar og er því bent á ýmis ákvæði og framkvæmd hér á landi sem þarf að bæta, að mestum hluta athugasemdir alþjóðlegra nefnda sem hafa skoðað stöðu þessara mála hér á landi.
Ritið á pdf formi hér.