Fyrsti alþjóðlegi dagur Sameinuðu þjóðanna um stúlkubörn 11. október 2012

Ár hvert ganga um það bil 10 milljón stúlkubarna í hjónaband áður en þær ná 18 ára aldri. Í verstu tilfellunum eru átta ára gamlar stúlkur seldar í hjónabönd með karlmönnum sem eru þrisvar til fjórum sinnum eldri en þær.

Þegar börn ganga í hjónabönd eru réttindi þeirra brotin. Að ganga í hjónaband þvingar börn, sérstaklega stúlkur, til að bera ábyrgð sem þau eru oft ekki líkamlega eða andlega tilbúin til að takast á við.

Stúlkur sem eru þvingaðar til að ganga í hjónaband eiga frammi fyrir sér líf sem einkennist af líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, niðurlægjandi og ómanneskjulegri framkomu sem og þrældómi. Hjónaband hefur einnig áhrif réttindi stúlkna til menntunar, heilsu og ákvarðanatöku um eigið líf. Stúlkur sem giftast ungar hætta oft snemma í skóla, en það minnkar líkur þeirra á að öðlast nauðsynlega þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir og afla sér tekna.  

Víða er minnst á rétt barna til að njóta frelsis og fulls samþykkis í hjónabandi. Í kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna er til dæmis kveðið á um að trúlofun og gifting barns skuli ekki hafa neinar lögfylgjur. Einnig segir í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að aðildarríkjum sé skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Í gær var í fyrsta skipti alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna um stúlkubörn haldinn. Dagurinn er haldinn til að hvetja ríki til að hækka giftingaraldur stúlkna og drengja upp í 18 ár án undantekninga og tileinka sér aðgerðir til að koma í veg fyrir að börn séu þvinguð til að ganga í hjónaband. Eins og allar gerðir þrældóms, eiga þvinguð hjónabönd að vera flokkuð sem glæpsamlegt athæfi.

Samkvæmt hópi mannréttindasérfræðinga hjá Sameinuðu þjóðunum er nauðsynlegt að lögð sé áhersla á að auka almenningsvitund um vandamálið sem felst í giftingu barna meðfram aðgerðum gegn þvinguðum hjónaböndum. Það yrði gert með herferðum sem beina athygli að  því tjóni sem þvinguð hjónabönd barna hefur sem og hvernig að þeim er staðið. 

Með þessum degi er verið að minna ríki á skyldu þeirra til að styðja og vernda rétt stúlkna sem og skyldu þeirra til að binda enda á skaðlegar aðgerðir gegn stúkum, í samræmi við alþjóðleg lög.

Fyrir frekari upplýsingar sjá heimasíðu mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16