Flýtilyklar
Félagsmálaráðherra kynnir aðgerðaáætlun í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundu ofbeldi ,,Jólagjöfin í ár"segir Thelma Ásdísardóttir
Í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundu ofbeldi kynnti félagsmálaráðherra í gær aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi gegn börnum sem samþykkt var af ríkisstjórninni 26. september s.l. Ávarp ráðherra má lesa hér. Avarp_vid_kynningu__a_adgerdaaatlun_stjornvalda
Um 140 milljónum króna verður varið í verkefni sem tengjast aðgerðaáætluninni til ársins 2011. Aðgerðaáætlunin var samin á vettvangi samráðsnefndar félagsmálaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, en við gerð hennar voru meðal annars höfð til hliðsjónar drög frjálsra félagasamtaka að aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem samin var og kynnt stjórnvöldum í kjölfar 16 daga átaks árið 2004.
Ráðherra tilkynnti á fundinum með félagasamtökum í gær að hann hefði ákveðið að endurskipa samráðsnefndina, en skipunartími hennar hefði að óbreyttu runnið út í janúar næstkomandi. Helsta verkefni nefndarinnar á að verða að fylgja aðgerðaáætluninni eftir í framkvæmd.
Aðgerðaáætlunin er mikilvægt skref til í baráttunni gegn kynbundu ofbeldi og langþráð viðurkenning frá stjórnvöldum á því að kynbundið ofbeldi sé alvarleg staðreynd á Íslandi sem bregðast verður við á heildstæðan hátt. Það er afar ánægjulegt að samráðsnefndin verði endurskipuð og að fjármunum verði veitt til verkefna þeirra sem samþykkt eru í áætluninni. Á fundinum kom fram að aðgerðaáætlunin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og enn eigi eftir að bæta við hana. Hér mætti taka til nánari athugunar tilmæli félagasamtaka sem ekki náðu inn í aðgerðaáætlunina varðandi t.d. hina s.k. austurrísku leið en þá er lögreglu heimilað að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum í stað þess að fórnarlömbin þurfi að flýja. Félagasamtök hafa einnig mælt með að skoðað verði að færa ábyrgð á vændi af seljanda á kaupanda, að sett verði í lög ákvæði um fórnarlamba- og vitnavernd fyrir fórnarlömb mansals, o.fl.
Thelma Ásdísardóttir, starfskona Kvennaathvarfs, tók til máls fyrir hönd 16 daga átaksins í gær. Thelma sem kemur bæði að starfsemi Stígamóta og Kvennaathvarfsins og stendur mjög nálægt þolendum í þeim málaflokkum sem aðgerðaáætlunin er samin fyrir sagði að það sem einna mestu skipti við aðgerðaáætlunina væri að hún fæli í sér viðurkenningu stjórnvalda um að "við ætlum að standa saman í þessu. Það hefur verið svolítil hneigð til að líta á þennan málaflokk sem málaflokk kvenna, málaflokk sem konur í mussum úti í bæ eru að rífast yfir," sagði Thelma. Áætlunin væri "mjög skýr, sterk og frábær yfirlýsing um að svo er ekki lengur, heldur ætlar íslenska þjóðin að standa saman að því að berjast gegn þessu," sagði Thelma. Gott væri að heyra að samráðsnefndin hefði verið endurskipuð og að fjármagn til málaflokkanna væri tryggt. "Ég ætla að leyfa mér að líta á þetta sem jólagjöfina í ár," sagði Thelma.