Félags- og barnamálaráðherra endurnýjar samning um lögfræðiráðgjöf til innflytjenda

Félags- og barnamálaráðherra endurnýjar samning um lögfræðiráðgjöf til innflytjenda
Undirritun samnings um lögfræðiráðgjöf

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ), hafa skrifað undir endurnýjun samnings um lögfræðiráðgjöf til innflytjenda.

MRSÍ hefur um sjö ára skeið sinnt lögfræðiráðgjöf til innflytjenda þeim að kostnaðarlausu. Er hún veitt á grundvelli samnings við félagsmálaráðuneytið. Samkvæmt samningnum hefur skrifstofan fengið árlegan styrk til að standa straum af kostnaði vegna túlkaþjónustu og þeirra lögfræðinga sem sinna ráðgjöfinni.

Fengin reynsla sýnir að veruleg þörf er fyrir þessa þjónustu og fer aðsóknin vaxandi frá ári til árs. Mest er óskað eftir ráðgjöf á sviði fjölskylduréttar, einkum vegna skilnaðar- forsjár- og umgengnismála, en ýmis önnur mál koma einnig við sögu, s.s. ráðgjöf vegna dvalar- og atvinnuleyfa, húsnæðismála, fjárhagsörðugleika og ýmis önnur mál sem varða félagsleg réttindi innflytjenda. Óski einstaklingur eftir að hafa túlk með sér í viðtalið er það honum að kostnaðarlausu.

Síðastliðið ár hefur innflytjendum einnig verið boðið upp á viðtöl í Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis í Reykjavík. Fyrirhugað er að bjóða upp á sömu þjónustu í Bjarmahlíð sem er samskonar miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi. Þá er fyrirhugað að MRSÍ muni veita reglulega lögfræðiráðgjöf til innflytjenda í nýrri ráðgjafastofu fyrir innflytjendur.

Lögfræðiráðgjöf Mannréttindaskrifstofu Íslands við innflytjendur er veitt í húsnæði skrifstofunnar, Túngötu 14, á miðvikudögum frá kl. 14-20 og á föstudögum frá kl. 9-14. Tekið er við tímapöntunum í síma 552-2720 eða í tölvupósti: info@humanrights.is


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16