Flýtilyklar
Fá áfram ókeypis lögfræðiaðstoð
Velferðarráðuneytið hefur endurnýjað samning við Mannréttindaskrifstofu Íslands um að annast lögfræðiráðgjöf við innflytjendur þeim að kostnaðarlausu. Mannréttindaskrifstofan hefur sinnt slíkri þjónustu undanfarið ár og er samningurinn endurnýjaður í ljósi góðrar reynslu af verkefninu, að því er fram kemur í frétt á vef velferðarráðuneytisins.
Mannréttindaskrifstofa Íslands fær fjórar milljónir króna til verkefnisins samkvæmt samningnum og er fénu fyrst og fremst ætlað að standa straum af kostnaði vegna lögfræðiráðgjafar og túlkaþjónustu. Fengin reynsla sýnir að veruleg þörf er fyrir þessa þjónustu. Mest er óskað eftir ráðgjöf á sviði fjölskylduréttar, einkum vegna skilnaðar- forsjár- og umgengnismála, en ýmis önnur mál koma einnig við sögu, s.s. ráðgjöf vegna umsókna um dvalar- og atvinnuleyfi og ýmis önnur mál sem varða félagsleg réttindi innflytjenda.
Lögfræðiráðgjöf Mannréttindaskrifstofu Íslands við innflytjendur er veitt í húsnæði skrifstofunnar, Túngötu 14, á miðvikudögum frá kl. 14-20 og á föstudögum frá kl. 9-14. Tekið er við tímapöntunum í síma 552-2720 eða í tölvupósti: info@humanrights.is
Fréttin á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01