Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti 2014

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti 2014
Merki Evrópuvikunnar 2014

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti, 21. mars, og miðar að því að uppræta þröngsýni, fordóma og þjóðernishyggju í Evrópu. Í tengslum við 21. mars er haldin Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti en þá koma þúsundir manna saman til að kveða niður kynþáttafordóma og misrétti í álfunni. Markmiðið er að byggja Evrópusamfélag víðsýni og samkenndar þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi ofangreinda dagsetningu í minningu 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars 1960 er þeir tóku þátt í mótmælum gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku.  Samtökin sem halda utan um Evrópuvikuna heita United Against Racism og á heimasíðu þeirra er hægt að finna allar frekari upplýsingar um 21. mars sem og Evrópuvikuna. Þar er einnig að finna upplýsingar um hvernig dagskráin fer fram í öðrum löndum Evrópu á hverju ári.

Í ár eins og síðustu ár taka ýmis félagasamtök víðsvegar um land þátt í verkefninu en í ár eru það Skátarnir, KFUM/K, deildir innan Rauða krossins á Íslandi, Félag Horizon og nemendur úr grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

 

Markmið verkefnisins er nú sem endranær að fræða ungmenni um kynþáttamisrétti og einnig að fræða þau um hvernig þau geti upplýst aðra um hinar ýmsu hliðar kynþáttamisréttis, hvernig sporna megi við því, osfrv.

Auk þess að fræðast um kynþáttamisrétti munu ungmennin hittast í sínum félögum og skrifa persónuleg skilaboð á kort sem send verða til handahófsvalinna Íslendinga. Þar með vonast þau til að vekja aðra til umhugsunar um kynþáttamisrétti og fá fleiri liðsmenn í báráttunni gegn því.

Þema Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti 2014 er Við erum öll hluti af sömu heild. Hönnuður myndar / logo verkefnisins í ár er Heiðrún Tinna Haraldsdóttir.

Sjá einnig https://www.facebook.com/evropuvika


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16