Brugðust við gagnrýni alþjóðastofnana

Líklegt er að bið hælisleitenda eftir afgreiðslu kærumála styttist með stofnun úrskurðarnefndar um ákvarðanir Útlendingaeftirlitsins. Þetta er mat framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Alþingi samþykkti fyrir helgi stofnun óháðrar úrskurðarnefndar sem á að úrskurða í kærumálum hælisleitenda í stað innanríkisráðherra. Breytingunni er ætlað að tryggja að óháður aðili annist endurskoðunina í stað innanríkisráðuneytisins og jafnframt að mannréttindasamtök eigi aðild að nefndinni. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands segir breytinguna til bóta. „Ég tel þetta vera framfaraskref.  Ég get ekki séð annað en það sé verið að bregðast við athugasemdum alþjóðastofnana,“ segir hún. 

Annar tveggja nefndarmanna sem skipaðir eru til fimm ára í senn skal skipaður af Mannréttindaskrifstofu Íslands og hafa sérþekkingu á sviði útlendingamála. Þetta segir Margrét að stuðli að hvoru tveggja: Hlutleysi og sérhæfingu nefndarinnar. Þá segir hún líklegt að biðtími styttist. 
„Það sem er auðvitað mikilvægast eins og staðan er í dag er að auka afgreiðsluhraða mála. Og svo finnst mér auðvitað mikilvægt að hvert mál fyrir sig verði skoðað, ekki tekið svona eins og heildarpakki, það þarf auðvitað að skoða alltaf aðstæður hvers og eins hælisleitanda fyrir sig.“

Fréttina má skoða á ruv.is hér; http://www.ruv.is/frett/brugdust-vid-gagnryni-althjodastofnana


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16