Flýtilyklar
Börn ættleidd til Íslands án tilskilinna leyfa
Dæmi eru um að einstaklingar komi með börn hingað til lands án þess að ganga frá forsjá þeirra eða ættleiðingu með lögformlegum hætti. Í einhverjum tilvikum hefur ekki verið hægt að beita refsingum vegna brotalama í lögum um ættleiðingar.
Í íslenskum lögum vantar ákvæði sem taka til atvika þegar barn er selt ólöglega til ættleiðingar eða kemur til landsins á fölskum forsendum, svo sem þegar barn kemur til landsins með ættingjum sem ekki hafa forræði yfir því. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, kannast við að nokkur slík mál hafi komið upp hér á landi. Hún segir jafnframt ákvæði hegningarlaga um mansal ekki taka til þessara atvika og því sé ekkert ákvæði í íslenskri löggjöf sem gerir slíka háttsemi refsiverða eða lýtur að því hvað eigi að gera varðandi barnið sjálft.
Hún segir að í flestum tilfellum búi ekkert annað að baki en að búa börnunum gott heimili hér á landi. Hinsvegar þurfi lög sem taki á þessu að vera til staðar.
Margrét telur nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld fullgildi hinn alþjóðlega Haagsamning um ættleiðingar á milli landa sem og Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna svo að þessum málum verði komið í réttan farveg.
Fréttin á vísir.is http://www.visir.is/born-aettleidd-til-islands-an-tilskilinna-leyfa/article/2011110429571