Flýtilyklar
Áttunda ritið í ritröð Mannréttindaskrifstofunnar, Þjóðbundnar mannréttindastofnanir, kemur út.
Í apríl árið 2007 kynnti utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, stefnu Íslands í mannréttindamálum. Í ræðu sem ráðherrann flutti af því tilefni var fjallað um mikilvægi þess að koma á fót íslenskri mannréttindastofnun í samræmi við svokallaðar Parísarreglur Sameinuðu þjóðanna. Parísarreglurnar gera ráð fyrir opinberum mannréttindastofnunum á fjárlögum ríkisins. Sjálfstæði stofnananna á að vera tryggt með lögum er kveða á um fjárhag, skipurit, ráðningu starfsfólks o.fl. Í ræðu ráðherra kom fram að hún teldi mikilvægt að um slíka stofnun yrðu sett sérstök lög en mannréttindastofnuninni yrði ætlað að vera viðbót við mannréttindastarfsemi og uppbyggingu mannréttindamála í landinu.
Mannréttindaskrifstofan hefur lýst því yfir að hún sé tilbúin til að gegna með formlegum hætti hlutverki sjálfstæðrar og óháðrar landsstofnunar sem starfi í samræmi við Parísarreglurnar4 en á fjárlögum 2008 eru skrifstofunni merktar tíu milljónir króna til rekstrar og verkefna.
Umfjöllunarefni ritsins er þjóðbundnar mannréttindastofnanir eða landsstofnanir (e. national human rights institutions) og hlutverk Mannréttindaskrifstofu Íslands. Í ritinu er fjallað um helstu tegundir landsstofnana, um hlutverk þeirra og starfsemi. Aðeins átta þjóðbundnar mannréttindastofnanir hafa fengið fulla viðurkenningu sem slíkar og er þær allar að finna í Vestur-Evrópu. Í greinargerðinni er sérstaklega fjallað um mannréttindastofnanir Danmerkur og Noregs, en gagnlegt er að líta til þeirra þegar fjallað er um Mannréttindaskrifstofu Íslands, hvernig hún gæti sinnt hlutverki þjóðbundinnar mannréttindastofnunar og fengið viðurkenningu sem slík í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda.
Tilgangur ritsins er að varpa ljósi á þjóðbundnar mannréttindastofnanir og gera grein fyrir stöðu mannréttindastofnana á Íslandi, sérstaklega Mannréttindaskrifstofu Íslands. Greinargerðin hefst á stuttu yfirliti yfir mannréttindavernd og skyldur Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. Þá tekur við umfjöllun um þjóðbundnar mannréttindastofnanir, saga þeirra er rakin og helstu tegundum slíkra stofnana er lýst, en sérstaklega verður fjallað um evrópskar mannréttindastofnanir og þróunina á þessum vettvangi í Evrópu. Þá tekur við umfjöllun um mannréttindastofnanir á Norðurlöndum og íslenskar mannréttindastofnanir. Að lokum eru niðurstöður dregnar saman.