Athygli vakin á stöðu flóttafólks

„Heimili“ er yfirskrift alþjóðadags flóttamanna 2010 sem er haldinn í dag. Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Alþjóðhús efna í dag í samstarfi við Reykjavíkurborg og Flóttamannastofnun SÞ til viðburðar á Ingólfstorgi, sem hófst nú klukkan 13. 

Þar verða málefni flóttafólks kynnt en einnig boðið upp á ýmsa skemmtun, s.s. tónlist, dans, kaffi og léttar veitingar. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. 

„Á alþjóðadegi flóttamanna er vakin athygli á stöðu flóttafólks og allra þeirra sem neyðast til að leggja á flótta. Áherslan er á raunir þeirra ríflega 40 milljóna karla, kvenna og barna sem neyðst hafa til að yfirgefa heimili sín vegna átaka, ofbeldis eða annarra aðstæðna. Flestir eru á flótta innan eigin landamæra en um tólf milljónir eru skilgreindar sem flóttamenn í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Mikill meirihluti flóttafólks leitar ásjár í nágrannaríkjum, sem oft eru fátæk, og bíður tækifæris til að snúa til baka með eða án aðstoðar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ef flóttafólk getur ekki snúið til baka til síns heima og er ekki öruggt í því landi sem það flúði til, leitar Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til alþjóðasamfélagsins um að veita þeim sem mest þurfa á vernd að halda öruggt skjól svo það geti hafið venjulegt líf á nýjan leik,“ segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Þannig hafa íslensk stjórnvöld boðið 512 flóttamönnum vernd hér á landi í samvinnu við Flóttamannastofnun, Rauða kross Íslands og sveitarfélög í landinu frá árinu 1956.

 

Fréttin á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2010/06/20/athygli_vakin_a_stodu_flottafolks/


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16