Flýtilyklar
Áskorun Landssamtakanna Þroskahjálpar til hæstvirts Alþingis
Landssamtökin Þroskahjálp skora á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands með föstum fjárveitingum á fjárlögum.
Með tilkomu Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir félög og stofnanir sem starfa að mannréttindamálum og réttindabaráttu ýmissa hópa til að samhæfa krafta sína með velferð allra í huga. Flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi standa nú að Mannréttindaskrifstofunni. Stjórn Mannréttindaskrifstofunnar skipa fulltrúar allra félaga sem að henni standa. Mannréttindaskrifstofan hefur verið þeim sameiginlegur vettvangur mannréttindaumræðu og þannig styrkt félögin í afmörkuðum baráttumálum sem og í sameiginlegri hagsmunabaráttu.
Á ellefu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt. Mannréttindaskrifstofan er mikilvægur umsagnaraðili um lagafrumvörp sem snerta mannréttindi og gegnir lykilhlutverki í samstarfi Íslands við mannréttindanefndir Sameinuðu þjóðanna.
Landssamtökin Þroskahjálp telja að fjármagni til mannréttindamála sé best varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og þar með sjálfstæði hennar, svo Mannréttindaskrifstofan megi áfram vera sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
Landssamtökin Þroskahjálp hvetja því alla þingmenn til að kynna sér fjölbreytt starf Mannréttindaskrifstofunnar og aðildarfélaga hennar og tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.
Virðingarfyllst,
f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar
Gerður A. Árnadóttir, formaður
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri