Flýtilyklar
Andvíg staðgöngumæðrun
Miklu meiri og lengri umræðu er þörf áður en til greina kemur að heimila staðgöngumæðrun hér á landi. Þetta kemur fram í fjölda umsagna um þingsályktunartillögu um málið.
Þá er það gagnrýnt að samkvæmt tillögunni eigi frumvarp til laga að vera tilbúið þann 31. mars. Það sé allt of stuttur tími.
Í tillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur sem undirbúi frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun. Þar er gert ráð fyrir að staðgöngumæðrun verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni og einnig að skylda verði að gert verði bindandi samkomulag milli verðandi foreldra og staðgöngumóður. Þannig á að tryggja að hvorki staðgöngumóðir né foreldrar geti hætt við samkomulagið.
Þetta er meðal þess sem gagnrýnt er í umsögnum. Mannréttindaskrifstofa Íslands segir það ganga þvert á mannréttindasjónarmið að kona sé bundin af samningi sem sviptir hana rétti yfir líkama sínum. Siðfræðistofnun Háskóla Íslands segir að með þessu sé vikið frá því verklagi sem tíðkist í flestum löndum. Slíkur samningur beri merki viðskiptasamninga, en ekki úrlausna á sviði fjölskylduréttar og vegi að yfirráðum konu á meðgöngu yfir líkama sínum.
Fimmtán aðilar hafa skilað inn umsögnum til heilbrigðisnefndar Alþingis um tillöguna og mæla aðeins tveir þeirra með því að tillagan verði samþykkt, Staðganga, stuðningsfélag staðgöngumæðrunar á Íslandi og Tilvera, samtök um ófrjósemi.
Fréttin á vísir.is http://www.visir.is/andvig-stadgongumaedrun/article/2011702269897