Alþjóðadagur fatlaðs fólks 3. desember

Alþjóðadagur á vegum Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk er í dag. Dagurinn er haldinn til stuðnings réttinda fatlaðs fólks á alþjóðavettvangi.

Um það bil 15% mannkyns lifa með einhvers konar fötlun og talað er um fatlað fólk sem stærsta minnihluta heims. Þessi hópur finnur oft fyrir hindrunum sem gera það að verkum að hann getur ekki tekið þátt í samfélagi sínu að mörgu leyti. Hindranirnar geta verið ýmis konar, til dæmis þær sem snúa að hreyfingu eða upplýsinga- og samskiptatækni, samfélagslegu viðhorfi og fordómum. Hindranir gera það að verkum að fatlað fólk hefur ekki sama aðgang og aðrir að menntun, starfi, samgöngum, þátttöku í stjórnmálum og ýmsum öðrum samfélagsþáttum og þjónustu.

Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem á að innleiða hér á landi árið 2013, er fötlun hugtak sem hefur þróast vegna samskipta milli fólks með fötlun og viðhorfs- og umhverfishindrana sem hamlar fulla þátttöku þessa fólks í eigin samfélagi.  Því er aðgengi og þátttaka fatlaðs fólks í samfélaginu grunnréttindi í samningnum.

Alþjóðadagur fatlaðs fólks er haldinn til að beina athygli að því misrétti sem fatlað fólk býr við víðsvegar um heim og vinna að aðgengilegu samfélagi fyrir alla.

Meira um daginn má lesa hér.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16