Áhrif aðgerða gegn kórónaveirunni á grundvallarmannréttindi

Áhrif aðgerða gegn kórónaveirunni á grundvallarmannréttindi
Mannréttindaskrifstofa Íslands

Þessa dagana erum við að upplifa fordæmalausa tíma, eins og svo margir hafa bent á. Yfir okkur vofir mikil vá sem yfirvöld nánast allra ríkja heims hafa orðið að bregðast við. Aðgerðir þær sem fyrirskipaðar hafa verið eru nauðsynlegar til að bægja vánni frá dyrum okkar, til þess hefur þurft að skerða grundvallarmannréttindi fólks, hin augljósustu eru ferðafrelsi og frelsi til að koma saman en skerðingar á friðhelgi einkalífs og persónuupplýsingavernd eru einnig líklegar. Þá vaknar spurning um jafnræði og hættuna á því að fólki verði mismunað.

Allar skerðingar á mannréttindum eru áhyggjuefni. Þær þurfa að vera í samræmi við lög, nauðsynlegar í lýðræðissamfélagi, stefna að lögmætu markmiði og afar mikilvægt er að gæta meðalhófs, það er beita aldrei harðari ráðstöfunum en nauðsyn ber til og ekki lengur en þörf er á.  Þó við séum öll sammála um nauðsyn aðgerða og unum tímabundinni réttindaskerðingu sem þær hafa í för með sér, er mikilvægt að vera vel á verði og gæta þess að aðgerðirnar bitni ekki harðar á tilteknum hópum. Stjórnvöld allra ríkja heims þurfa að meta hvort og hvernig aðgerðir þær sem gripið er til geta haft mismunandi áhrif á þjóðfélagshópa og viðhafa sérstakar aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunum Sömuleiðis ber að taka mið af stöðu og þörfum viðkvæmra hópa, svo sem fatlaðs fólks, aldraðra og barna, tímabundnar aðgerðir geta haft langvarandi og jafnvel varanleg áhrif á einstaklinginn sem fyrir þeim verður. Þannig þarf að gæta að og meta áhrif sóttkvíar og einangrunar á ferðafrelsi, hvernig lokun skóla kemur niður á foreldrum og nemendum, og stöðu sjálfstætt starfandi fólks og láglaunafólks. Þá þarf að gæta að áhrifum aðgerðanna á innflytjendur og aðra minnihlutahópa. Gæta þarf og að friðhelgi einkalífs og  persónuupplýsingavernd.

Stjórnvöld verða einnig að tryggja að aðgerðir gegn kórónavírusnum byggi á vísindalegum grunni og að engum sé mismunað og að almenningur hafi aðgengi að upplýsingum. Vernda þarf heibrigðisstarfsfólk og tryggja eftir fremsta megni að heilbrigðisþjónusta sé öllum aðgengileg án mismununar og fari að læknisfræðilegum siðareglum, menningarnæmi og vönduð.

Við vonum öll að ástandi þessu létti sem allra fyrst og að við getum tekið til við að lifa lífinu á ný laus við ótta og áhyggjur af heilsu okkar og okkar nánustu. En þá er ekki síður mikilvægt að gæta þess að neyðaraðgerðum verði aflétt eins skjótt og auðið er, og að engir hópar sitji eftir með varanlegar afleiðingar þeirra skerðinga á mannréttindum sem gripið hefur verið til. Við erum öll saman í þessari baráttu, við erum öll mannréttindaverndarar.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16