60plús - Tökum afstöðu með mannréttindum !

Fyrir ári síðan, á 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, samþykkti allsherjarþing SÞ viðauka sem felur í sér kæruleið vegna brota gegn efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum. Viðaukinn staðfestir að öll mannréttindi eru jafngild og samofin. Brot gegn efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum eru órjúfanlega tengd brotum gegn borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum. Tjáningarfrelsi tengist t.d. oft réttinum til menntunar og rétturinn til lífs krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir ungbarnadauða, farsóttir og hungur.

Viðaukinn er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem býr við fátækt og hópar sem eru á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar.

Öryggi og lýðræði geta einungis þrifist í samfélögum þar sem mannréttindi eru virt. Virk vernd efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda er ekki hvað síst mikilvæg þegar skórinn kreppir. Sagan kennir okkur að efnahagslegir erfiðleikar geta leitt til alvarlegra skerðinga mannréttinda. Brýnt er að efnahagslegum og félagslegum réttindum sé ekki varpað fyrir róða í aðgerðum yfirvalda til að takast á við efnahagsvandann; virðing fyrir mannréttindum borgaranna á að vera leiðarljós í allri ákvarðanatöku. Samþykkt kæruleiðar fyrir íslenska borgara sem telja efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi á sér brotin er yfirlýsing íslenskra stjórnvalda um að þau hyggist tryggja þessi réttindi til fulls.

Í tilefni af alþjóðadegi mannréttinda hvetja Íslandsdeild Amnesty International og Mannréttindaskrifstofa Íslands yfirvöld til að undirrita og fullgilda viðauka við alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Með undirritun og fullgildingu viðaukans myndi Ísland skipa sér í framvarðasveit mannréttinda á heimsvísu og taka afgerandi afstöðu með mannréttindum.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16