Flýtilyklar
451 flóttamaður komið til Íslands
Rauði kross Íslands og Mannréttindaskrifstofa Íslands hvetja íslensk stjórnvöld til að fullgilda alþjóðasamninga um ríkisfangslausa. Á fimmta hundrað flóttamanna hafa komið til Íslands á vegum stjórnvalda.
Fyrsti flóttamannahópurinn kom til Íslands frá Ungverjalandi árið 1956. Síðan hafa stjórnvöld boðið hingað flóttafólki frá Júgóslavíu, Víetnam, Póllandi, Kosovó og Kolumbíu. Alls 451 manneskju, meirihlutinn á síðustu ellefu árum.
Og nú í haust bætast við 30 manns, 9 fjölskyldur frá Kólumbíu, aðallega einstæðar mæður og börn þeirra. Konurnar sættu ofbeldi í Kolumbíu og flúðu til Ekvador en eru líka taldar í hættu þar. Íslensk sendinefnd fór þangað í síðustu viku og liðsmenn fréttastofu voru með í för. Sendinefndin tók flóttamenn í viðtöl og valdi síðan þessa þrjátíu sem koma í haust. Zija Krrutaj kom frá Kosovó ásamt fjórum systkinum sínum og foreldrum í síðasta flóttamannahópnum fyrir tveimur árum. Hann hefur aðlagast íslensku þjóðfélagi vel. Hann kláraði stúdentspróf frá Fjölbraut í Ármúla, vinnur í sumar með unglingum í Tónabæ og stefnir á nám í alþjóðaviðskiptum í Háskóla Íslands. Hann segir tungumálið erfiðasta hjallann, sérstaklega fyrir foreldrana.
En í tilefni af alþjóðadeginum skorar Mannréttindaskrifstofa Íslands á íslensk stjórnvöld að gerast aðilar að þremur samningum Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangslausa flóttamenn. Ísland er eina Norðurlandið sem ekki er aðili að þessum samningum. Framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands segir miklu skipta að fullgilda samningana.
Hægt er að lesa og horfa á fréttina á vísir.is hér.