Flýtilyklar
16 daga átak: Grein eftir nemendur í lífsleikni við VMA
Greinina má lesa hér fyrir neðan, og á visir.is.
Allar greinar sem og aðrar upplýsingar sem birtar eru í tengslum við 16 dag átakið birtast líka á Facebook-síðu 16 daga átaksins, og á Facebook-síðu Mannréttindaskrifstofunnar; hægt er að fylgjast auðveldlega með átakinu með því að "líka við" síðurnar.
Er það þess virði að hafa klám sem fyrirmynd?
Inngangur: Valgerður Dögg Jónsdóttir lífsleiknikennari
Í Verkmenntaskólanum eru allir nýnemar í áfanga sem kallast Lífsleikni. Þar kynnast nemendur t.d. innviðum skólans og starfsháttum, starfsfólki og félagslífi. Lífsleiknihóparnir eru margir og hver þeirra á sinn umsjónarkennara. Nemendur fá einnig tækifæri til að búa sig undir þátttöku í samfélaginu með því að efla enn fremur félagslega færni og siðferðiskennd. Við ræðum m.a. um sjálfsmynd og það sem hefur áhrif á hana og ábyrgð hvers og eins á eigin hugsunum, skoðunum og gjörðum.
Nemendurnir höfðu ólíkar hugmyndir og því fóru af stað miklar rökræður sem leiddu svo til ákveðinnar niðurstöðu sem allir gátu verið sáttir við. Hér kemur þeirra niðurstaða:
Þegar persónur eru í góðu sambandi, þarf að ríkja traust á milli þeirra, þær þurfa að vera hreinskilnar hvor við aðra, tala saman, finna fyrir ástríðu, og ekki skammast sín. Þetta sést ekki í klámi.
Þegar maður byrjar í sambandi og veit að hinn aðilinn hefur horft mikið á klám hefur maður áhyggjur af því að maður standist ekki þær kröfur sem gerðar eru í þessum myndum og jafnvel tónlistarmyndböndum. Að maður hafi ekki nógu stór brjóst eða nógu stórt typpi, ekki nógu mjó/r eða vöðvastælt/ur eða kunna ekki allar stellingar sem sýndar eru í þeim. Bæði strákar og stelpur geta haft þessar áhyggjur.
Við segjum að hver og einn þurfi að hafa sjálfstraust til að gera það sem hann telur rétt en ekki að herma eftir einhverju öðru sem hann hefur séð, þá getur maður verið í heilbrigðu sambandi. Að tala saman og komast að því hvað báðir aðilar vilja gera saman, það er gott samband.