16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hefst 25. nóvember

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hefst á sunnudaginn 25.  nóvember og verður staðið fyrir ýmsum viðburðum í tilefni þess næstu vikur. Ljósaganga UN Women er opnunarviðburður átaksins, en gengið verður frá Alþingisgarðinum að Bíó Paradís þar sem boðið verður upp á kakó og smákökur. Í kjölfarið verða haldin málþing, kvikmyndasýningar, bréfamaraþon og fleira. Í ár höfum við einnig boðið elstu bekkjum grunnskólanna og framhaldskólunum að taka þátt í átakinu og fá fræðslu um kynbundið ofbeldi.

Átakið er alþjóðlegt og var fyrst haldið árið 1991. Markmið þess er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis í heiminum. Ísland hefur tekið þátt í því síðastliðin níu ár og ekki er vanþörf á. Á síðasta ári, 2011, leitaði 671 kona  til Kvennaathvarfsins og 593 einstaklingar til Stígamóta. Kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum er útbreiddasta ofbeldið á heimsvísu en yfir 70% kvenna verða fyrir því einhvern tíma á lífsleiðinni, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna.

Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Tímasetningin var einnig valin til að leggja áherslu á mannréttindabrotin sem felast í slíku ofbeldi. Í ár er þema átaksins hér heima „heimilisfriður - heimsfriður“ því að aðeins þegar friður er á heimilum næst friður í heiminum.  Því er sjónum beint að heimilisofbeldi og ábyrgð gerandans.

Skipuleggjendur hátíðarinnar á Íslandi eru Mannréttindaskrifstofa Íslands, UN Women, Jafnréttisstofa, Rauði krossinn, Jafnréttishús, Stígamót, Kvennaathvarf, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis, Kynferðisbrotadeild lögreglunnar, Íslandsdeild Amnesty International og ýmsir aðrir sem koma að átakinu með einum eða öðrum hætti.

Dagskrá átaksins og upplýsingar um viðburði má sjá á slóðinni http://humanrights.is/servefir/16dagar og á https://www.facebook.com/16dagar.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16