Mannréttindaskrifstofa Ísland semur við innanríkisráðuneytið til fjögurra ára

Mannréttindaskrifstofa Ísland semur við innanríkisráðuneytið til fjögurra ára
Hópurinn við undirritun samningsins

Mannréttindaskrifstofan hefur gert fjögurra ára styrktarsamning við innanríkisráðuneytið. Starfsemi skrifstofunnar styrkist með þessu fyrirkomulagi þar sem henni verður gert kleift að gera skýrari langtímaáætlanir á grundvelli öruggara rekstrarumhverfis.

Mannréttindaskrifstofan gegnir lykilhlutverki sem eftirlitsaðili með framkvæmd stjórnvalda á sviði mannréttinda. Hún hefur sinnt hlutverki innlendrar mannréttindastofnunar að mörgu leyti, meðal annars með ritun skuggaskýrslna til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna, gerð athugasemda við lagafrumvörp og átt gott samráð við stjórnvöld. Þá hefur hún einnig verið mikilvægur hlekkur í samstarfi frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttindamála hér á landi.

Stjórnvöld hafa ítrekað verið hvött til þess að setja á laggirnar innlenda mannréttindastofnun í samræmi við svokölluð Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna. Þar má nefna athugasemdir frá öllum eftirlitsnefndnum sem starfa á grundvelli þeirra kjarnasamninga SÞ sem Ísland á aðild að, ábendingar mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins og tilmæli í UPR-fyrirtöku Íslands 2011.

Með samningnum er lagt til grundvallar að skrifstofan styðjist við Parísarviðmiðin í starfsemi sinni um leið og starfseminni er veittur styrkur til lengri tíma og sjálfstæði skrifstofunnar undirstrikað.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16