Flýtilyklar
Málþing um réttlæti - upptökur úr Glerárkirkju
Framkvæmdastjóri MRSÍ, Margrét Steinarsdóttir, flutti erindi um mannréttindi og réttlæti í Glerárkirkju 5. mars sl.
Málþingið var eitt af nokkrum sem Glerárkirkja stóð fyrir um málefnið með það að markmiði að skapa vettvang fyrir opna umræðu um málefni sem snerta kirkju og samfélag, mannréttindi, fátækt og misskiptingu auðs, jafnrétti og jafnræði, einstaklingshyggju og samfélagslega ábyrgð.
Allir fyrirlestrar og hugvekjur eru nú komnar á netið á þessari slóð: http://kirkjan.is/naust/fraedsla/malthing-um-rettlaeti-i-mars-2014/
Í erindi sínu gerði Margrét grein fyrir mannréttindum almennt en í síðara hluta erindisins fékkst hún við efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
Hún skilgreindi mannréttindi út frá Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna:
“Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.”
Þau fjalla um mannlega reisn. Eru réttindi sem menn eiga á þeim eina grundvelli að vera manneskjur, meðfædd, óafsalanleg, ódeilanleg, háð innbyrðis og samtvinnuð. Þau eru algildar reglur, gilda fyrir alla, alls staðar. Það er skylda stjórnvalda sem aðilar eru að sáttmálanum um mannréttindi að fylgja þeim eftir en ekki einstaklinga.
Margrét greindi á milli annars vegar borgaralegra og stjórnmálalegra mannréttinda sem fjallað er um í 1-21. greinum Mannréttindayfirlýsingarinnar, og hins vegar efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda sem fjallað er um í 22-28. greinum Mannréttindayfirlýsingarinnar. Þetta er reyndar mjög umdeild aðgreining og réttindin samtvinnuð.
Hún rakti rætur mannréttinda til frönsku mannréttindayfirlýsingarinnar sem kom í kjölfar frönsku byltingarinnar og mannréttindayfirlýsingar Bandaríkjanna. En eftir hörmungar síðara heimsstyrjaldarinnar hafi Sameinuðu þjóðarnar verið stofnaðar á grundvelli þessara hugmynda sem hún taldi tæmandi talningu í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Þá fór hún í þau vandkvæði og áherslumun sem hefði komið fram við gerð bindandi mannréttindasáttmála og í umræðunum var það tekið til umfjöllunar að sumar þjóðir hafa ekki skuldbundið sig og aðrar telja mannréttindi menningarbundin. Þá fjallaði hún um þrjár kynslóðir mannréttinda og tók mörg raunveruleg dæmi þegar hún fjallaði um framkvæmd mannréttindi í raun eftir efnahag þjóðanna t. d. þegar tímabundin kreppa hefur takmarkað möguleika þjóða að framfylgja efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, en óháð efnahag ber stjórnvöldum að tryggja grundvallarmannréttindi.
Af síðu Eyjafjarðar- og Þingeyrarprófastdæmis